Matur og næring,  Nýtt

Dásamleg Tómatasúpa

Hver elskar ekki heimagerða tómatasúpu, svo ég tali nú ekki um úr heimaræktuðum tómötum. Eftirfarandi uppskrift er bæði einföld og þægileg.

Hráefni

  • 2 msk. smjör
  • 2 msk. ólivíuolía
  • 1 stór laukur, sneiddur
  • klípa af salti
  • 900 gr. tómatar
  • 2-3 hvítlauksrif, brytjuð
  • 1 msk. ósoðin hrísgrjón
  • klípa af basil eða timjan (eftir smekk)
  • 1 lárviðarlauf
  • 1 msk. garam masala

Leiðbeiningar

Setjið í pott smjör, ólivíuolíu, lauk og klípu af salti. Hitið þar til suðan fer að koma upp, látið malla þar til laukurinn fer að linast. Munið að hræra í pottinum annað slagið.

Þegar laukurinn hefur linast bætið hvítlauksrifjunum út í og látið malla saman í u.þ.b. 2 mínútur. Næst er að setja tómatana út í (mæli með því að afhýða þá fyrst), hrísgrjónin, lárviðalaufið og kryddin.

Látið sjóða við vægan hita þar til tómatarnir eru farnir að maukast. Gott er að bæta við vatni, smjöri og salti út í pottinn, allt eftir smekk. Þegar súpan er tilbúin þá er gott að taka lárviðalaufið upp úr pottinum.

Njótið!